Um verkefnið

Við biðjum þig að taka þátt í einni viðamestu vísindarannsókn sem ráðist hefur verið í á Íslandi.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna mögulegan ávinning þess að skima fyrir forstigi mergæxlis.

Rannsóknin í hnotskurn:

Til að taka þátt þarftu einungis að veita samþykki með því að:

 • Fara á forsíðu www.blodskimun.is og slá inn kennitölu og lykilorðið sem þér ætti að hafa borist í fjólubláu umslagi með pósti. Einnig er hægt nota rafræn skilríki eða Íslykil til að samþykkja þátttöku.

Eða

 • Undirrita samþykkisyfirlýsingu sem er að finna í fjólubláa umslaginu og póstleggja hana ófrímerkta í meðfylgjandi umslagi.

Hvað gerist svo?

 • Þú þarft ekki að fara í sérstaka blóðprufu. En næst þegar þú ferð í blóðprufu, til dæmis á heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi, munum við fá hluta af sýninu sem ella yrði hent, til að skima fyrir forstigi mergæxlis.
 • Þeim sem reynast vera með forstig mergæxlis verður skipt handahófskennt í þrjá hópa með mismunandi áherslum.
 • Heilsufarsgögnum og upplýsingum um lífsgæði verður safnað með reglulegu millibili.

Hvað er mergæxli?

 • Mergæxli er krabbamein í beinmerg.
 • Hægt er að halda mergæxli í skefjum með lyfjameðferð.

Hvað er forstig mergæxlis?

 • Forstig mergæxlis er góðkynja og einkennalaust.
 • Um 4% allra 40 ára og eldri bera það.
 • Einungis 1% þeirra hefur forstig sem þróast í mergæxli, á hverju ári.

Hver er ávinningur minn?

 • Niðurstöður rannsóknarinnar munu varpa ljósi á hvort ávinningur sé af því að skima fyrir forstigi mergæxlis.
 • Reynist þú vera með forstig sem þróast yfir í mergæxli muntu mögulega greinast og fá meðferð fyrr.

Góð þátttaka er forsenda rannsóknarinnar.

Þitt framlag skiptir máli.

Leggðu okkur lið.

Upplýsingar til þátttakenda

Rannsóknin er á vegum Háskóla Íslands, Krabbameinsfélags Íslands og Landspítala og heitir „Blóðskimun til bjargar/Þjóðarátak gegn mergæxlum“. Tilgangur hennar er að rannsaka áhrif skimunar á afdrif einstaklinga með góðkynja einstofna mótefnahækkun (monoclonal gammopathy of undetermined significance, skammstafað MGUS) sem er einkennalaust forstig mergæxlis.

Þér er alfarið í sjálfsvald sett hvort þú tekur þátt. Áður en þú gerir upp hug þinn er mikilvægt fyrir þig að kynna þér um hvað rannsóknin snýst og hvernig hún fer fram. Gefðu þér góðan tíma til að lesa þessar upplýsingar og ræddu þær við fjölskyldu þína eða vini. Ef þér finnst upplýsingarnar ekki fullnægjandi eða ekki svara öllum spurningum þínum er þér velkomið að hafa samband við rannsakendur með því að senda tölvupóst á upplysingar@blodskimun.is eða hringja í síma 896-0022.

Mergæxli og forstig þess

Mergæxli er krabbamein í beinmerg og einkenna sjúkdómsins verður oft ekki vart fyrr en hann hefur haft alvarleg áhrif á heilsuna. Árlega greinast um 25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 120 þúsund manns á heimsvísu. Samfara auknum rannsóknum á sjúkdómnum og nýjum og betri lyfjum hafa horfur sjúklinga með mergæxli batnað gríðarlega síðastliðin ár.

Góðkynja einstofna mótefnahækkun er forstig mergæxlis en hjá einstaklingum með þetta forstig mælast viss prótein í blóði sem kallast einstofna mótefni. Forstig mergæxlis er þó ekki krabbamein og flestir sem eru með forstigið fá aldrei mergæxli. Um 1% einstaklinga með forstig mergæxlis fær mergæxli á hverju ári en á hverjum tíma eru u.þ.b. 4-5% Íslendinga yfir 50 ára aldri með forstig mergæxlis.

Umfang rannsóknarinnar

Læknar við Háskóla Íslands og á blóðlækningadeild Landspítala leiða rannsóknina, í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands, líftæknifyrirtækið Binding Site í Bretlandi og Memorial Sloan Kettering-sjúkrahúsið í Bandaríkjunum. Þessi vísindarannsókn er framkvæmd til þess að meta áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis á horfur einstaklinga og jafnframt til þess að finna bestu mögulegu greiningarferli og eftirfylgni einstaklinga með forstigið, sem og almenn áhrif skimunar af þessu tagi á lífsgæði.

Til þess að taka þátt í rannsókninni þarftu eingöngu að veita upplýst samþykki, annaðhvort með því að skrá þig inn hér eða skriflega á samþykkisyfirlýsingu sem þér hefur verið send í fjólubláu umslagi. Ekki er þörf á frekari þátttöku af þinni hálfu að svo stöddu. Ef þú ferð í blóðrannsókn á næstu þremur árum (af hvaða ástæðu sem er) munum við fá hluta af sýninu til frekari greininga sem ella yrði hent. Þú þarft því ekki að fara í sérstakar blóðprufur fyrir þessa rannsókn eða gera frekari ráðstafanir. Ef þú ferð ekki í neina blóðrannsókn næstu þrjú árin gætum við haft samband til þess að biðja þig að koma í sýnatöku. Blóðsýni úr þér verður sent til greiningar á forstigi mergæxlis til Binding Site í Bretlandi. Ekki verða sendar neinar persónugreinanlegar upplýsingar með sýninu.

Von okkar er að rannsóknin muni auka þekkingu á náttúrlegum gangi forstigs mergæxlis og horfum þeirra sem það hafa og að hægt verði að segja fyrir um áhættu á þróun sjúkdómsins. Mikilvægt er að fá góða þátttöku fyrir rannsóknir sem þessar.

Hverjum er boðið að taka þátt í rannsókninni?

Öllum einstaklingum búsettum á Íslandi, fæddum 1975 og fyrr, er boðin þátttaka.

Framkvæmd rannsóknar

Yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda mun ekki greinast með forstig mergæxlis og verða þeir þátttakendur ekki kallaðir inn til mats eða frekari rannsókna. Litlum hluta þessa hóps verður þó mögulega af handahófi boðið að gefa blóðsýni til frekari samanburðar við þá sem greinast með forstigið.

Um 4-5% þátttakenda munu greinast með forstig mergæxlis og verður þeim af handahófi skipt í þrjá hópa:

Hópur 1 verður hvorki kallaður til viðtals né fylgt eftir með blóðprufu. Í lok rannsóknarinnar verður haft samband við alla í hópi 1 og þeim greint frá niðurstöðu skimunarinnar og ráðlagt viðeigandi eftirlit, sem byggir á niðurstöðu þessarar rannsóknar.

Hópur 2 verður kallaður til viðtals og upplýsingagjafar. Farið verður yfir fyrra heilsufar, framkvæmd líkamsskoðun og tekið blóð- og þvagsýni. Um það bil 20 ml blóðsýni verður tekið við fyrstu komu, eftir sex mánuði og árlega eftir það hjá hluta hópsins eða þéttar eftir þörfum. Þetta eru sýni til að fylgjast með sjúkdómsgangi og til vísindarannsókna. Blóðsýni verða meðal annars tekin til að meta blóðhag, nýrnastarfsemi, hjartastarfsemi, bólgu og ákveðin prótein og breytingar í erfðaefni. Þvagsýni verður tekið við fyrstu komu, eftir sex mánuði og árlega eftir það, bæði til þess að fylgjast með sjúkdómsgangi og til vísindarannsókna.

Hluta þessa hóps verður boðið í myndgreiningu og beinmergsrannsókn við fyrstu komu, til að staðfesta greiningu og aftur við lok rannsóknar. Að auki verður beinmergssýni tekið eftir því sem læknisfræðilegar ástæður gefa tilefni til.

Hópur 3 verður kallaður til viðtals og upplýsingagjafar. Farið verður yfir fyrra heilsufar, framkvæmd líkamsskoðun og tekið blóð- og þvagsýni. Um það bil 20 ml blóðsýni verður tekið við fyrstu komu, eftir sex mánuði og árlega eftir það eða þéttar eftir þörfum. Þetta eru sýni til að fylgjast með sjúkdómsgangi og til vísindarannsókna. Blóðsýni verða meðal annars tekin til að meta blóðhag, nýrnastarfsemi, hjartastarfsemi, bólgu og ákveðin prótein og breytingar í erfðaefni. Þvagsýni verður tekið við fyrstu komu, eftir sex mánuði og árlega eftir það, bæði til þess að fylgjast með sjúkdómsgangi og til vísindarannsókna.

Öllum verður boðin tölvusneiðmynd og beinmergsrannsókn við fyrstu komu, til að staðfesta greiningu og mögulegar beinbreytingar. Að auki verður beinmergssýni tekið eftir því sem læknisfræðilegar ástæður gefa tilefni til.

Meðferð lífsýna

Þeim sem greinast með forstig mergæxlis býðst erfðarannsókn á blóði hjá Íslenskri erfðagreiningu, þar sem kjarnsýrur (DNA) verða einangraðar til greiningar á erfðabreytileika. Úr beinmergnum verða einangraðar plasmafrumur og gerðar erfðarannsóknir og frumuflæðisjárrannsókn. Hluti af sýninu verður sendur til samstarfsaðila, doktor Ola Landgren hjá Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, til frekari rannsókna. Þar verður meðal annars gerð genatjáningarrannsókn (gene expression profiling), ásamt öðrum sameindafræðilegum mælingum. Þetta er gert til þess að skoða nánar mismunandi hegðun og eiginleika forstigs mergæxlis milli einstaklinga og til þess að skilja betur tilkomu og þróun forstigs mergæxlis. Þau sýni sem send verða til Bandaríkjanna eru merkt með dulkóðuðu rannsóknarnúmeri þátttakenda og því ekki persónugreinanleg.

Önnur lífsýni

Frekari vísindarannsóknir gætu fært okkur meiri vitneskju um vissa þætti varðandi forstig mergæxlis.

Þess vegna eru þátttakendur beðnir um leyfi til að varðveita lífsýni þeirra í frekari rannsóknum. Þær rannsóknir geta hjálpað til við að greina forstig mergæxlis af meiri nákvæmni en nú er hægt og vonandi leiðir það til bættra meðferðarmöguleika í framtíðinni. Lífsýni tekin í þessari rannsókn verða geymd án persónuauðkenna. Þau verða varðveitt í lífsýnasafni Íslenskrar erfðagreiningar. Ef sýnin eru flutt á annan stað til geymslu eða til rannsóknar eru þau því ekki persónugreinanleg og starfsfólk þeirrar rannsóknar hefur engan aðgang að persónuupplýsingum. Ef þú gefur samþykki þitt verða lífsýnin varðveitt í 15 ár eftir lok rannsóknarinnar. Frekari rannsóknir yrðu alltaf háðar leyfi Vísindasiðanefndar og yrðu upplýsingar um þær birtar á heimasíðu verkefnisins. Þátttakendur geta beðist undan því að gögn um þá séu notuð í tilteknum rannsóknum með því að hafa samband við rannsakendur með tölvupósti eða bréfi.

Könnun á lífsgæðum

Allir þátttakendur verða beðnir um að taka þátt í könnun á lífsgæðum, hvort sem forstig mergæxlis greinist eður ei. Markmið þessarar könnunar er að meta áhrif skimunar fyrir sjúkdómum á lífsgæði. Í könnuninni verða þátttakendur beðnir um að fylla út stuttan spurningalista. Fyrst við upphaf rannsóknar, þá eftir sex mánuði og árlega eftir það. Með þessum spurningalista er verið að mæla lífsgæði eins og þátttakendur sjálfir upplifa þau.

Gagnasöfnun

Annarra heilsufarsupplýsinga um þátttakendur í rannsókninni verður aflað með því að samkeyra gögn rannsóknarinnar við eftirfarandi heilsufarsgagnagrunna: Krabbameinsskrá, Lyfjagagnagrunn landlæknis, Samskiptaskrá heilsugæslustöðva, Vistunarskrá heilbrigðisstofnana, Rafræn sjúkraskrárkerfi Landspítala og Dánarmeinaskrá. Þannig verður upplýsingum um heilsu þátttakenda safnað, fyrir og eftir að rannsókn hefst.

Algengar spurningar

Hvað er mergæxli?

Mergæxli er krabbamein í beinmerg. Það er upprunnið í frumum ónæmiskerfisins sem nefnast plasmafrumur. Undir eðlilegum kringumstæðum mynda þessar frumur svokölluð mótefni sem leika mikilvægt hlutverk í vörnum líkamans gegn sýkingum. Að meðaltali greinast 25 Íslendingar á ári með mergæxli. Sjúkdómnum fylgja fjölbreytt heilsufarsleg vandamál, allt frá nýrnabilun að beinbrotum. Horfur sjúklinga hafa stórbatnað undanfarin ár með framförum í lyfjameðferð.

Hvað er forstig mergæxlis?

Góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) er forstig mergæxlis, en í einstaklingum sem það hafa mælast viss prótein í blóði sem kallast einstofna mótefni. Forstig mergæxlis er þó ekki krabbamein og flestir sem greinast með forstig fá aldrei mergæxli. Ekki er því ráðlagt að meðhöndla forstig mergæxlis. Um 1% einstaklinga með forstig mergæxlis fær mergæxli á hverju ári en á hverjum tíma eru u.þ.b. 4-5% Íslendinga eldri en 50 ára með forstigið.

Hver er mögulegur ávinningur og áhætta af þátttöku í rannsókninni?

Þekkingin sem verður til í rannsókninni getur komið einstaklingum sem í framtíðinni greinast með forstig mergæxlis til góða. Einnig munu fást mikilvægar upplýsingar um áhrif skimunar og vitneskja um forstig krabbameina á andlega líðan.

Mögulegt er að einhverjir einstaklingar greinist með mergæxli. Þeim einstaklingum verður boðin frekari greining og meðferð á blóðlækningadeild Landspítala.

Áhættan sem fylgir þátttöku er lítil. Væg óþægindi geta komið fram við blóðsýna- og beinmergstöku hjá þeim fáu einstaklingum sem kallaðir verða sérstaklega inn til frekari rannsókna.

Hvað gerist ef þú vilt ekki taka þátt í þessari rannsókn?

Ef þú kýst að taka ekki þátt þarftu ekkert að gera, hvorki að skrifa undir nokkurt plagg né gefa skýringu á ákvörðun þinni. Ákvörðunin mun engin áhrif hafa á aðgengi þitt að heilbrigðisþjónustu í framtíðinni. Ef þú ákveður seinna að taka þátt getur þú alltaf skipt um skoðun og að sama skapi getur þú hætt þátttöku hvenær sem er.

Ert þú tryggður á meðan þátttaka þín varir?

Einstaklingar í rannsókninni eru sjúkratryggðir samkvæmt landslögum á sama hátt og aðrir. Engar sérstakar bótatryggingar ná yfir þessa rannsókn en einstaklingar hafa vitaskuld sama lagalegan rétt og aðrir.

Hvað verður um upplýsingarnar um þig?

Læknisfræðilegar upplýsingar um þátttakendur rannsóknarinnar verða skráðar og vistaðar í rafrænni rannsóknarskrá. Þessar upplýsingar verða með öllu ópersónugreinanlegar. Til þess að gera þær persónugreinanlegar þarf að hafa aðgang að afkóðunarlykli sem aðalrannsakandi vistar. Eftir að rannsókn lýkur verða upplýsingar fluttar í fyrirhugað safn heilbrigðisupplýsinga Landspítala.

Fylgir kostnaður/greiðsla þátttöku í rannsókninni?

Enginn kostnaður hlýst af þátttöku þinni í rannsókninni. Ekki er greitt fyrir þátttöku í rannsókninni.

Hvaða opinberu aðilar hafa veitt leyfi fyrir þessari rannsókn?

Vísindasiðanefnd, Persónuvernd, Krabbameinsskrá, Embætti landlæknis og framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala hafa veitt leyfi fyrir þessari rannsókn.

Rannsakendur

Ábyrgðarmaður rannsóknar:
Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum

Rannsóknarteymi:
Þorvarður Jón Löve, læknir
Ásdís Rósa Þórðardóttir, verkefnastjóri
Sara Lovísa Halldórsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Guðrún Ásta Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur
Ingibjörg Hrefna Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Sigurborg Eva Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Sigurlína Hrönn Steinarsdóttir, tæknimaður á rannsóknarstofu
Jón Þórir Óskarsson, líffræðingur
Íris Pétursdóttir, lífeindafræðingur
Elín Ruth Reed, líffræðingur
Guðlaug Katrín Hákonardóttir, líffræðingur
Gauti Kjartan Gíslason, tölfræðingur
Hinrik Snær Guðmundsson, forritari
Hera Hallbera Björnsdóttir, sérfræðingur
Sæmundur Rögnvaldsson, doktorsnemi
Meðrannsakendur:
Þorvarður Jón Löve, dósent við læknadeild Háskóla Íslands
Andri S. Björnsson, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands
Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Landspítala
Ísleifur Ólafsson, yfirlæknir rannsóknastofu Landspítala
Kristján Oddsson, yfirlæknir og forstjóri Krabbameinsfélagsins
Ola Landgren, prófessor við Memorial Sloan Kettering sjúkrahúsið í Bandaríkjunum
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands
Ásbjörn Jónsson yfirlæknir geislagreiningar Rannsóknarsvið LSH
Brynjar Viðarsson, sérfræðilæknir í blóðsjúkdómum
Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræðideild Rannsóknarsvið LSH
Bjarni Agnarsson prófessor og meinafræðingur
Margrét Sigurðardóttir, meinafræðingur
Ragnar Danielsen sérfræðingur í hjartasjúkdómum
Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga LSH
Ólafur Skúli Indriðason nýrnalæknir LSH
Einar Stefán Björnsson, prófessor og yfirlæknir í lyflækningum LSH
Elías Eyþórsson, læknir og doktorsnemi
Sæmundur Rögnvaldsson, doktorsnemi
Hjartavernd
Íslensk erfðagreining
Binding Site í Bretlandi

Doktorsnemar og rannsóknarverkefni:
Maríanna Þórðardóttir
Áhrif holdafars og mataræðis á góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) og framþróun yfir í mergæxli.
Um verkefnið: Góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) er alltaf undanfari mergæxlis en MGUS er samkvæmt skilgreiningu einkennalaus og er tíðni sjúkdómsins háð aldri. Orsök MGUS er óþekkt og er markmiðið með þessu verkefni að kanna tengsl þess við holdafar og mataræði og notast við gögn frá Hjartavernd. Með því að bera saman sjúklinga með og án MGUS og tengja við holdafar og mataræði í gegnum æviskeið þeirra munum við getað svarað mikilvægum spurningum er snúa að lífsstílstengdri áhættu MGUS.

Guðbjörg Jónsdóttir
Lýðgrunduð rannsókn á bráðahvítblæði/mergfrumumisþroska hjá sjúklingum með mergfrumuæxli.
Um verkefnið: Mergæxli (MM) er ólæknandi sjúkdómur í beinmergi. Síðastliðin ár hafa komið á markað ný lyf sem hafa stóraukið lífslíkur þessara sjúklinga. Nýlegar niðurstöður og rannsóknir benda til þess að líkur á hvítblæði (AML) og mergmisþroska (MDS) hafi aukist hjá sjúklingum með MM, sérstaklega þegar nýju lyfin eru notuð. Undirliggjandi ástæður þessa eru óljósar og áhættuþættir umbreytingar ekki þekktir. Ætlunin er að rannsaka alla sjúklinga sem greindir hafa verið með MM í Svíþjóð á árunum 1958-2012. Með því að tengja þann hóp saman við krabbameinsskrá fást upplýsingar um alla sem hafa síðar greinst með AML/MDS. Nákvæmar upplýsingar um meðferð og rannsóknarniðurstöður við greiningu, meðal annars blóðrannsóknir og niðurstöður beinmergsskoðunar verða skráðar úr sjúkraskrám. Markmiðið er að auka skilning og þekkingu á áhættuþáttum AML/MDS-umbreytingar hjá sjúklingum með MM.

Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir
Mergæxli og fylgisjúkdómar.
Um verkefnið: Skilgreining fylgisjúkdóma er þegar tveir eða fleiri sjúkdómar fylgjast að hjá sama sjúklingi. Tilvist fylgisjúkdóma hjá sjúklingum hefur verið tengd við verri lifun, meðal annars hjá einstaklingum greindum með krabbamein og illkynja blóðsjúkdóma. Fáar rannsóknir hafa einblínt á tengsl fylgisjúkdóma og lifunar hjá sjúklingum með mergæxli og lítið hefur verið rannsakað hvaða áhrif fylgisjúkdómar hafa á horfur og val á meðferð. Markmið rannsóknarinnar er því að skoða þetta samband auk þess að smíða nýtt áhættulíkan sem metur lifun nýgreindra einstaklinga með mergæxli út frá fylgisjúkdómum þeirra.

Sæmundur Rögnvaldsson
Notkun frumuflæðisjástækni við greiningu á forstigum mergæxlis.
Um verkefnið: Frumuflæðisjástækni er notuð til greiningar á mörgum blóðkrabbameinum en notkun þess í mergæxlum og forstigum þess er takmörkuð. Beinmergs og blóðsýni verða tekin úr einstaklingum með góðkynja einstofna mótefnahækkun (MGUS) og mallandi mergæxli í iStopMM rannsókninni og skoðuð í frumuflæðisjá. Markmið rannsóknarinnar er svo að nota þessar niðurstöður til að skoða fýsileika þessa að nota frumuflæðisjástækni til greiningar og áhættustigunar þessara forstiga.

Vilhjálmur Steingrímsson
Sýkingar og lifun hjá sjúklingum með krónískt eitilfrumuhvítblæði.
Um verkefnið: Krónískt eitilfrumuhvítblæði (e. Chronic Lymphocytic Leukemia, CLL) er algengasta hvítblæðið á Vesturlöndum. Það kemur fyrst og fremst fram í eldra fólki og er meðalaldur við greiningu um 75 ár. Ný lyf hafa bætt lifun sjúklinga með CLL. Sjúklingar með CLL eru ónæmisbældir, bæði vegna áhrifa sjúkdómsins á ónæmiskerfið en einnig vegna nýju lyfjanna sem flest hafa ónæmisbælandi áhrif. Í doktorsverkefninu mínu ætla ég bæði að skoða hvernig lifun og horfur sjúklinga með CLL hefur verið að breytast undanfarna áratugi, en einnig skoða tíðni og alvarleika sýkinga hjá sjúklingum með CLL.

Sigrún Þorsteinsdóttir
Beinasjúkdómur hjá sjúklingum með mergæxli og lifun þeirra eftir greiningu sjúkdómsins.
Um verkefnið: Mergfrumuæxli (multiple myeloma) er krónískur illkynja B-frumu sjúkdómur sem einkennist af stjórnlausri skiptingu plasmafrumna í beinmergnum. Nær öll tilfelli mergfrumuæxlis koma í kjölfar ástands er kallast góðkynja einstofna mótefnahækkun (monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS), sem er einkennalaust ástand af óþekktum uppruna. Sjúklingar með mergfrumuæxli hafa hátt nýgengi á beinasjúkdómi. Samband beinasjúkdóms og MGUS hefur ekki verið rannsakað að fullu. Verkefninu verður skipt upp í þrjá hluta. Markmið fyrsta hluta verkefnisins er að notast við gögn Reykjavíkurrannsóknar Hjartaverndar til að rannsaka beinasjúkdóm í einstaklingum með MGUS. Annar hluti verkefnisins snýr að beinasjúkdómi í sjúklingum með mergfrumuæxli. Notast verður við sænsku krabbameinsskrána þar sem upplýsingar um sjúklinga með mergfrumuæxli verða tengdar við greiningar á beinþynningu og beinbrotum og borið saman við heilbrigða einstaklinga. Í þriðja hluta verkefnisins verður lifun hjá sjúklingum með mergfrumuæxli í nýjum gögnum úr sænsku krabbameinsskránni skoðuð. Reiknuð verður lifun í mismunandi aldursflokkum og þróun lifunar skoðuð í ljósi opinberra meðferðarfyrirmæla á hverju tímabili.

Sækja bækling

Hér er hægt að sækja bækling til útprentunar. Bæklingurinn er í A5 stærð

f


Rannsóknaráætlun

Hér fyrir neðan er hægt að sækja rannsóknaráætlun verkefnisins.


Að undirrita yfirlýsingu um samþykki

Ákveðir þú að taka þátt í rannsókninni verður þú beðin(n) um að veita samþykki þitt rafrænt hér á www.blodskimun.is með því að slá inn kennitölu og lykilorðið sem þér hefur verið sent í fjólubláu umslagi, eða með rafrænum skilríkjum/Íslykli. Einnig getur þú veitt samþykki með því að undirrita samþykkisyfirlýsinguna sem er að finna í fjólubláa umslaginu og póstleggja í meðfylgjandi umslagi, án frímerkis. Þú getur hætt hvenær sem er meðan á rannsókninni stendur með því að senda tölvupóst á urskraning@blodskimun.is eða bréf til ábyrgðarmanns.

Ef þú hefur spurningar um rétt þinn í vísindarannsókn eða vilt hætta þátttöku í rannsókninni getur þú snúið þér til Vísindasiðanefndar, Borgartúni 21, Reykjavík. Netfang: vsn@vsn.is.

Hafir þú fleiri spurningar varðandi rannsóknina getur þú alltaf rætt við þinn eigin lækni, aflað frekari upplýsinga hér á vefsíðu rannsóknarinnar, sent tölvupóst á upplysingar@blodskimun.is eða hringt í síma 896-0022.


With funding from European Reserach Council (ERC)

ERC Logo
European commission Logo

This project has received funding from the European Reserach Council (ERC) under the European Union´s Horizon 2020 research and innovation programme (grant agreement No 716677)

Fyrir hönd rannsóknarhópsins,

Sigurður Yngvi Kristinsson
Prófessor í blóðsjúkdómum
Læknadeild Háskóla Íslands